Álag á líkama í grunnskóla

Af hverju göngum við með of þungar töskur í skólanum? Á unglingastiginu göngum við með allar bækurnar fyrir hvern einasta tíma. Hvern einasta dag löbbum við með bækurnar um allan skólann og svo heim meðan  miðstigið geymir flestar bækurnar í skólanum. Er ekki hægt að skipuleggja stundaskrána þannig að það séu kenndar færri námsgreinar sama dag?  Til dæmis er náttúrufræði kennd þrjá daga vikunnar. Af hverju er ekki hægt að  dreifa því á sama daginn?

Það getur verið slæmt fyrir bakið og axlir að hafa þunga tösku. Því þyngri sem hún er því meira verður manni illt. Það þyrftu að vera skúffur eða hillur undir bækurnar okkar  í kennslustofunni. Þá gætum við geymt þær þar og tekið þær með heim þegar að við þyrtum á þeim að halda. Sum okkar þurfa að taka auka bækur í valgreinarnar sem við erum í. Svo tökum við sundföt og íþróttaföt suma daga sem gera töskurnar enn þyngri. Börn á aldrinum 13-15 ára eru fjórfalt líklegri til að finna fyrir verkjum í bakinu en krakkar á aldrinum 5-9 ára. Ástæðan fyrir því getur verið of þungar skólatöskur. Þá er það sextánfalt hærra hjá þeim sem eru 16-20 ára. Iðjuþjálfar koma á hverju ári til yngri bekkjanna með fræðslu og vigta skólatöskur. Þeir mættu einnig koma inn á unglingastigið og vigta töskur og sýna hvernig best er að stilla þær þannig að þær sitji rétt á líkamanum. Borð og stólar í skólum eru misgóð fyrir okkur öll. Sum borð eru lág og of háir stólar eða öfugt. Það gerir það að verkum að við verðum meira hokin í baki eða með hendur of hátt uppi á borðum. Þegar við erum ekki með borð og stóla sem henta okkar hæð aukast líkurnar á stoðkerfisvandamálum á baki, handleggjum og hálsi.

Það myndi muna miklu ef það væru stillanleg borð og stólar í öllum skólum til að koma í veg fyrir óþarfa álag á líkamann okkar. Minna álag væri á líkamann ef við værum með léttari töskur og væri það betra að hafa skúffur undir bækurnar okkar eða vera með færri námsgreinar á dag . Við fáum aðeins einn líkama á ævi okkar.

Ólöf Rún Jónsdóttir 9. SÞ